Greiningardeild Arion á von á góðu uppgjöri 3. ársfjórðungs frá Marel, sem verður birt á fimmtudaginn. Pantanastaða félagsins hefur aldrei verið betri en í lok 2. ársfjórðungs og gerir greiningardeildin ráð fyrir að tekjur verði um 165 milljónir evra á 3. ársfjórðungi. Spáð er að EBITDA-hagnaður verði um 24 milljónir evra, eða um 14,5% af tekjum. Spáin er birt í Markaðspunktum í dag. Bent er á að sögulega hafi 3. ársfjórðungi hjá Marel verði lakari en aðrir ársfjórðungar, meðal annars vegna sumarleyfa sölumanna.

Greiningardeildin segir möguleika á að tekjuvaxtarspá fyrir félagið verði endurskoðuð, en almennt hafa aðilar á markaði verið að draga á hagvaxtarspám sínum fyrir næstu ári. Það velti þó allt á þróun næstu mánaða. „Versnandi efnahagshorfur og staða á mörkuðum upp á síðkastið gætu haft áhrif á fjármögnunarskilyrði viðskiptavina Marels, þá þannig að fyrirtæki ættu erfiðara með að fjármagna verkefni sín. Greiningardeild telur ólíklegt að það muni hafa áhrif á 3F en óvíst er með 4F og svo auðvitað næstu fjórðunga þar á eftir. Þróunin á pantanastöðunni núna á 3F og framgangur mála innan efnahagskerfa Evrópu og Bandaríkjanna mun ráða því hvort þörf verður á að lækka tekjuvaxtarspá fyrir þetta ár. Stálverð hefur hins vegar lækkað töluvert á 3F sem ætti að létta á rekstri félagsins og styðja við framlegð þess,“ segir í spánni.