Von er á 155 skipakomumá fimm mánaða sumarvertíð skemmtiferðaskipa hjá Faxaflóahöfnum sem hefst þann 14. maí. Það er talsverð viðbót frá metárinu í fyrra þegar komurnar voru 113 talsins. Gert er ráð fyrir 129 þúsund farþegum en í fyrra voru þeir tæplega 100 þúsund. Þetta kemur fram í frétt Túrista.

Haft er eftir Ernu Kristjánsdóttur, markaðsstjóra Faxaflóahafna, að það sé ekki von á því að listinn yfir skipakomur lengist úr þessu. Hún bendir á að yfirleitt bóki skipin sig með þriggja ára fyrirvara. Hún bætir við að hingað til hefur aldrei komið til þess að það þurfi að vísa skipum frá vegna plássleysis, en það er ætíð miðað við að það komi ekki fleiri en fimm til sex þúsund farþegar svo að innviðir ráði við fjöldann. Í ár munu tvö skemmtiferðaskip stoppa á Akranesi, en það er í fyrsta sinn sem tekið verður á móti slíkum í bænum.

Þjóðverjar eru stærsti hópurinn sem kemur sjóleiðina til höfuðborgarinnar samkvæmt talningum Faxaflóahafna. í fyrra var tæpur þriðjungur allra farþeganna frá Þýskalandi en fimmtungur frá Bandaríkjunum.