Meðlimir hljómsveitarinnar Hanson, sem gaf út smellinn MMMbop á tíunda áratugnum, ætla að hasla sér völl á áfengismarkaði með nýjum bjór. Sá hefur fengið nafnið MMMHop. Huffington Post fjallar um málið.

Bræðurnir Isaac, Taylor og Zac Hanson skipa hljómsveitina. Þegar frægðarsól þeirra reis hæst voru þeir aðeins táningar. Nú, nokkrum árum eldri, vilja þeir hasla sér völl á markaði sem höfðar meira til fullorðinna, heldur en framlag þeirra hefur verið hingað til. Bræðurnir tilkynntu um komu bjórsins, sem er IPA bjór (e. Indian pale ale), í Oxford háskóla síðastliðinn mánudag.

Augljósa tengingu má sjá milli nafns bjórsins og vinsælasta lags sveitarinnar. Tengingin er þó dýpri en svo. IPA bjór er jafnan ríkur af humlum, og oftar en ekki ríkari af humlum en annar bjór. Enska heitið yfir humla er einmitt „hops“.

Hér má sjá myndbandið við slagarann MMMBop frá 1997:

http://www.youtube.com/watch?v=NHozn0YXAeE&ob=av2e