Innan Apple tæknirisa er unnið að ódýrari gerð iPhone. Er ætlunin að auka markaðshlutdeild símans og bregðast við samkeppni frá fyrirtækjum líkt og Nokia og símum sem nota Android, stýrikerfi Google. Nýja tegund af iPhone yrði um helmingi ódýrari en iPhone 4 en það er nýjasta gerðin af iPhone.

Wall Street Journal greinir frá í dag. Með útgáfu ódýrari iPhone, sem kallast N97, gæti iPhone keppt við stærstan hluta smartsíma sem flestir eru töluvert ódýrari en iPhone. Apple selur iPhone í dag til söluaðila á 625 dollara, um 73 þúsund krónur, í Bandaríkjunum en notendur geta keypt hann á 199 dollara gegn tveggja ára samningi við símfyrirtækið. Það jafngildir um 23 þúsund krónum.

Ekki liggur fyrir hvar hinn ódýrari iPhone fer fyrst í sölu en hingað til hafa vörur Apple fyrst verið seldar í Bandaríkjunum áður en þær eru markaðssettar á öðrum mörkuðum.