Von er á útgáfuáætlun Íbúðalánasjóðs fyrir árið 2011 innan skamms tíma en hún átti upphaflega að koma 20. desember sl. Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, segir að ákveðið hafi verið að gefa áætlunina ekki út strax vegna eiginfjárframlags ríkisins sem samþykkt var fyrir áramót.  Þá samþykkti Alþingi að veita Íbúðalánsjóði allt að 33 milljarða króna til að bæta eiginfjárstöðu sjóðsins.

„Við vildum frekar gefa út rétta áætlun í stað þess að gefa út áætlun sem mögulega þarf að gjörbreyta. Þess vegna er ferlið að teygja sig inn í fyrstu tvo mánuði ársins,“ segir Sigurður. Hann segir stutt í áætlunina en vildi ekki gefa upp nákvæma tímasetningu.

Mikið innflæði

„Það er augljóst að við eiginfjárinnspýtingu þá skortir ekki fjármuni, að minnsta kosti til að byrja með. Við erum að fara yfir og vega og meta hvernig fjármununum verður ráðstafað,“ segir Sigurður. Aðspurður um áhrif ríkisframlagsins á skuldabréfaútgáfuáætlunina segir hann að það fari eftir hvernig peningunum verði ráðstafað. Nokkrir valkostir séu í stöðunni. „Hægt er að greiða upp ákveðnar skuldir, nota féð í ný útlán sem hefur þá áhrif á áætlunina eða varðveita það sem lausafé. Við erum að fara í gegnum þetta og vildum ekki senda áætlun út og þurfa mögulega að breyta henni verulega eftir að þessari vinnu lýkur. Við teljum að með þessu séum við að veita markaðnum réttar upplýsingar.“

Sigurður segir að verið sé að ganga frá framlagi ríkisins til Íbúðalánasjóðs. Ferlið sé á síðustu metrunum og tilkynnt verði um framlagið þegar það kemur.

Aðspurður hversu mikið reiðufé sjóðurinn haldi um segir Sigurður að talan hafi ekki verið gefin út. Hún sé í takt við það sem gert er ráð fyrir í reglum um lausafjárstýringu, um síðustu áramót hafi reiðufé verið innan allra viðmiðunarmarka.