„Það verður vonskuveður í næstu viku, leiðindaveður,” segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við Viðskiptablaðið í morgun. Þorsteinn segir að á morgun muni  norðaustanstormur með snjókomu ganga yfir Vestfirði, Norðurland vestra og Strandir.

Ekkert ferðaveður verði á þessu svæði seinni partinn á morgun og annað kvöld: „Þetta veður mun síðan ganga yfir allt landið á aðfangadag og jóladag. Það mun snjóa talsvert á Norður- og Austurlandi en minna verður um úrkomu sunnanlands. Þó verður hvasst þar.”

Frost verður á öllu landinu nema allra syðst og austast við sjóinn. Þorsteinn bendir þó á að spáin fyrir daginn í dag og fyrramálið sé ágæt og von sé á fínu vetrarveðri.