„Stóra myndin í efnahagsmálum er sú að efnahagsbatinn er það langt fram genginn að slakinn er að hverfa úr þjóðarbúskapnum," sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri á  fundi peningastefnunefndar og efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun.

Már sagði að enn virðist vera umtalsverður afgangur af viðskiptajöfnuði við útlönd, þó hann hafi minnkað frá í fyrra. Viðskiptaafgangurinn nægi fyrir hreinu fjármagnsútstreymi og reyndar gott betur þar sem Seðlabankinn hafi það sem af er þessu ári keypt gjaldeyri fyrir 95 milljarða króna, sem jafngildir 5% af vergri landsframleiðslu.

„Samkvæmt þeirri spá sem Seðlabankinn birti fyrr í þessum mánuði verður hagvöxtur rétt tæp 3% í ár en eykst síðan í um 3,5% á næsta ári en lækkar síðan á ný í tæplega 3% á árinu 2016. Talið er að þessi vöxtur verði umfram vöxt framleiðslugetu og því myndast framleiðsluspenna, einkum á næsta ári, sem að öðru óbreyttu stuðlar að meiri verðbólgu.

Hagvöxturinn á árunum 2014-2016 er drifinn áfram af innlendri eftirspurn, bæði einkaneyslu og fjárfestingu, en framlag utanríkisviðskipta til vaxtarins er neikvætt öll árin. Afleiðingin er sú að mikill viðskiptaafgangur síðasta og þessa árs lækkar verulega á næsta ári og snýst í lítils háttar halla á árinu 2016.

Þetta er í sjálfu sér áhyggjuefni og vonandi rætist þessi spá ekki þar sem Ísland þarf á viðskiptaafgangi að halda næstu árin meðan það er koma erlendum skuldum á öruggara stig og byggja upp gjaldeyrisforða sem ekki er fjármagnaður af erlendum lánum. Hagstjórn og efnahagslegir hvatar þyrftu því að taka mið af því að bæta horfur um viðskiptajöfnuð."

Mikil óvissa

Már sagði að samkvæmt hagspá bankans yrði verðbólga við verðbólgumarkmið allt spátímabilið, sem er til loka ársins 2017, að undanskildum tveimur árfjórðungum, sitt hvorum megin við áramótin 2015/2016.

„Að meðaltali yfir árin 2014-17 verður verðbólgan samkvæmt spánni 2,6% sem er ágætlega í samræmi við markmiðið sem er skilgreint sem 2,5%. En núverandi jafnvægi er brothætt, óvissan um framtíðina mikil og vitað er um mikilvæga áhættu, allt frá alþjóðlegu efnahagsástandi til losunar fjármagnshafta."