Danskir sérfræðingar telja að björgunarðagerðirnar í Bandaríkjunum muni verða til þess að eitthvað fari að rofa til á danska bankamarkaðinum þótt þeir leggi áherslu á að kreppan sé fráleitt á enda. "Ég tel að þetta muni róa markaðina. Bandarísku bankarnir geta nú losnað við eitthvað af vondu lánunum. Það ætti að róa markaðina eitthvað en það mun ekki færa okkur til baka til gömlu góðu daganna," segir Per H. Hansen, prófessor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn við viðskiptavef Jyllands-Posten, epn.

Í fréttinni segir að aðalvandinn felist í því að millibankamarkaðurinn sé frosinn vegna þess að bankar þori ekki að lána hver öðrum fé en að björgunaraðgerðirnar vestra geti aðeins losað um það.

Afar mikilvægt skref í rétta átt

"Við skulum ekki gera ráð fyrir að töfasprotanum hafi verið veifað, en þetta er afar mikilvægt skref í rétta átt. Það getur orðið til þess að fjármálamarkaðirnir fari aftur að virka með eðlilegum hætti og losa menn við óttann að það sé engum að treysta. Ég held að við eigum síðar eftir að horfa til baka og segja að samþykkt björgunaraðgerðanna vestra hafi valdið straumhvörfum," segir Jens Peter Neergaard, aðstoðaraforstjóri Danske Bank.