Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna, hefur í umræðum á Alþingi í kvöld gagnrýnt harðlega tillögu ríkisstjórnarinnar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Hann sagði enn fremur að hann hefði við myndun ríkisstjórnarinnar lýst því yfir að hann myndi ekki styðja ESB-tillöguna og að hann myndi berjast gegn henni innan þings sem utan. „Ég hefði fyrir mitt leyti ekki stutt þessa ríkisstjórn nema þetta hefði orðið með þessum hætti."

Ásmundur Einar sagði það arfavitlaust að fara í aðildarviðræður nú þegar íslenska þjóðin væri „búin að gera upp á bak," eins og hann orðaði það. Íslenska þjóðarbúið hefði aldrei verið skuldsettara. Íslendingar hefðu enga samningsstöðu.

Hann kvaðst vona að Jón Sigurðsson, sem barist hefði fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, sneri sér ekki við í gröfinni þegar og ef tillagan yrði samþykkt. Jón hefði trúað því að sjálfstæðið skipti öllu máli fyrir íslensku þjóðina.

Brúa þurfti mikið bil

Ásmundur Einar sagði í upphafi ræðu sinnar að eftir síðustu þingkosningar hefði legið ljóst fyrir að brúa þyrfti mikið bil á milli Samfylkingar og Vinstri grænna. Samfylkingin hefði verið fylgjandi aðild að ESB en VG á móti.

„Þetta mál tók mikinn tíma við myndun þessarar ríkisstjórnar," sagði hann „og niðurstaðan var sú að flokkarnir gengu til samstarfs. Í þessu samstarfi var kveðið á um það að umsókn um aðild að ESB skyldi lögð fyrir Alþingi og skyldi þar fá þinglega meðferð. Það lá líka ljóst fyrir að innan VG væru miklar efasemdir við þetta og  meðal annars þessa meðferð."

Ásmundur Einar kvaðst vera einn þeirra sem hefði lýst sig algjörlega andvígan því að farið yrði í þennan leiðangur. „Ég lýsti því yfir, við myndun þessarar ríkisstjórnar, að ég myndi ekki styðja þessa tillögu og að ég myndi áskilja mér allan rétt til að beita öllum þeim mögulegu aðferðum til að berjast gegn henni bæði innan og utan þings."

Síðan sagði hann: „Ég hefði fyrir mitt leyti ekki stutt þessa ríkisstjórn nema þetta hefði orðið með þessum hætti. Ég veit að fleiri voru sama sinnis. Því var niðurstaðan sú að VG myndu tryggja þetta mál inn í þingið og þegar það kæmi inn í þingið væri ekki meirihluti við málið innan ríkisstjórnarflokkanna. Þetta er staðreynd."

Í þinginu myndi málið síðan hljóta lýðræðislega umfjöllun og örlög þess ráðast.

„Sá tímapunktur nálgast nú óðfluga," sagði Ásmundur Einar Daðason, þingmaður VG, í umræðum um ESB-tillöguna sem nú standa yfir á Alþingi.