Flugfélagið Bláfugl, sem er í eigu Íslandsbanka í gegnum Miðengi, hefur enn ekki verið selt, en í janúar var hætt við sölu á félaginu eftir að fjármögnun væntanlegs kaupanda gekk ekki eftir. Björn Traustason, framkvæmdastjóri Miðengis, segir fyrirtækið ennþá til sölu og að viðræður hafi átt sér stað við áhugasama.

Aðspurður staðfestir hann að einhverjum kauptilboðum hafi verið hafnað. „Menn náðu ekki saman um verð,“ segir hann.

Á kynningarfundi um fjórðungsuppgjör Íslandsbanka sagði Jón Guðni Ómarsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, að erfiðlega hefði gengið að selja Bláfugl, enda rekstur félagsins verið erfiður undanfarin misseri. Væri þar m.a. um að kenna erfiðu starfsumhverfi, en fragtflug almennt hefði gengið brösuglega í heiminum öllum. Hann sagðist þó vonast til að gengið yrði frá sölu félagsins fyrir áramót. Í fyrra tapaði félagið rúmum sjö milljónum Bandaríkjadala, andvirði um 815 milljóna króna á meðalgengi síðasta árs.