„Það er erfitt að segja. Auðvitað hefur óvissa um framtíð sjóðsins áhrif og það er slæmt að ekki liggur fyrir hvernig tekist verður á við vandann,“ segir Margrét Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri eignastýringarsviðs Arion banka, spurð um Íbúðalánasjóð og þau áhrif sem óvissa um framtíð hans hefur. En Margrét segir það ekki aðeins hafa áhrif á fjárfestingarumhverfið heldur allt sem viðkemur fjármögnun húsnæðis.

„Að sjálfsögðu hefur það áhrif að það skuli ekki liggja skýrt fyrir hvernig íbúðalán verða fjármögnuð í framtíðinni né hvaða hlutverki Íbúðalánasjóður á að gegna. Þessi óvissa kostar. Áhrifin hafa þegar komið fram á markaði þar sem ávöxtunarkrafa HFF hefur hækkað. Það þarf hins vegar að fara að sjá til lands í þessu til að koma á fót framtíðarfyrirkomulagi á fjármögnun íbúðahúsnæðis.“

En það eru enn fleiri óvissuþættir þessu tengdir í íslensku efnahagslífi. Viðskiptablaðið hefur til að mynda greint frá því að sameiginlegt þinghald verði í öllum verðtryggingarmálunum fyrir dómstólum og aðalmeðferð hefst fyrir fjölskipuðum dómi í janúar. Málin eru gegn öllum bönkunum og Íbúðalánasjóði. Hvað gerist ef verðtrygging verður dæmd ólögleg fyrir íslenskum dómstólum? Eru Margrét og hennar fólk farið að undirbúa sig undir slíkt?

„Ég vil nú ekki vera að úttala mig um þetta. Þessi mál eru fyrir dómstólum og mér finnst best að bíða eftir þeirri niðurstöðu. En í þessu máli eins og auðvitað í öllum svona stórum málum er verið að undirbúa viðbrögð og kortleggja hvaða áhrif þau kunna að hafa.“ Margrét segir verðtryggingarmálin meðal þeirra stóru mála sem þarf að útkljá. „Af því að í þessu eins og svo mörgu öðru er óvissan svo slæm. Það sem maður hefur verið að vona er að þessum óvissumálum fari að fækka. Óvissan hefur það í för með sér, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum, að þau verða tregari til þess að taka ákvarðanir um sparnað og fjárfestingar ef umgjörðin er ekki skýr. Alltaf þegar fólk veit ekki hvar það stendur er auðvitað miklu erfiðara að gera áætlanir um framtíðina. Þannig hefur þetta áhrif. Fyrst og fremst þarf bara að fá úr þessu skorið, það er mjög mikilvægt.“

Margrét er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .