Malcolm Walker, forstjóri bresku matvöruverslunarinnar Iceland, veit ekkert um Póstmiðstöðina, dótturfyrirtækið sem 365 miðlar seldi seint á síðasta ári. Hann segist í samtali við Morgunblaðið vona að þetta verði arðvænleg fjárfesting.

Greint var frá því í gær að Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, Halla Sigrún Hjartardóttir, formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, og fleiri hafi keypt Póstmiðstöðina af 365 miðlum. Félag á vegum Walker hafi jafnframt keypt lítinn hlut. Hann segir í samtali við Morgunblaðið spurður út í það hvernig honum hafi dottið í hug að fjárfesta í póstdreifingarfyrirtæki hér á landi það hljóma kannski fáránlega, en um algjörlega blinda fjárfestingu sé að ræða. EInn af framkvæmdastjórum Iceland í Bretlandi hafi lagt til við sig að hann fjárfesti mér sér í fyrirtækinu.

„Ég hugsaði mig um að hámarki í 60 sekúndur og sagði svo: allt í lagi, gerum þetta,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Malcolm Walker keypti ásamt fleiri fjárfestum rekstur Iceland Food af slitastjórn Landsbankans í mars árið 2012.