Ross Beaty, forstjóri Magma Energy Corp., gerir sér vonir um að fá um 6,5-8 milljarða króna fyrir allt að fjórðungshlut í HS Orku en eins og fram kom á vb.is í fyrrakvöld eru viðræður um sölu á hlutnum til nokkurra íslenskra lífeyrissjóða langt komnar. Viðskiptablað Morgunblaðsins greinir frá því í dag að um sé að ræða 16-17 sjóði og að á meðal þeirra séu Lífeyrissjóður verzlunarmanna, LSR og Gildi.

Morgunblaðið vitnar sömuleiðis í samtal Beaty‘s við Reuters þar sem hann segist vonast til að fá um 55-68 milljónir dala fyrir hlutinn sem er sambærilegt við það verð sem Magma greiddi fyrir hlutinn. Flest bendir til þess að greitt verði fyrir hlutinn í krónum en ekki er enn ljóst hvort Magma geti fengið þeim krónum skipt í erlendan gjaldeyri vegna reglna um nýfjárfestingu erlendra aðila.