Bæjarstjórn breska sveitarfélagsins Bracknell Forest á suðurhluta Bretlands vonast enn eftir að fá meirihluta af því fé sem sveitarstjórnin fjárfesti í Glitni og Heritable, banka Landsbankans.

Segir í frétt á vef Brackard Forest Standard að stjórnin hafi nú fengið 931 þúsund pund af þeim þremur milljónum sem lagðar voru í Heritable banka. Að auki var tveimur milljónum punda fjárfest í Glitni og vonast sveitarstjórnin til þess að um 85% fáist til baka af þessari 5 milljóna punda fjárfestingu. Fimm milljónir punda eru jafnvirði um 900 milljóna króna á gengi dagsins í dag.

Mál vegna peninganna er í bígerð og er haft eftir Paul Bettison, forseta bæjarstjórnar, að vonir standi til að afgangur af peningunum berist sveitarfélaginu í enda janúar.