Vonir standa til þess að áhugi almennings á bréfum í Íslandsbanka verði umtalsverður þegar kemur að útboði hluta í bankanum. Fjármála- og efnahagsráðherra segir mikilvægt að skrá bankann á markað og að skráningin verði grundvöllur frekari sölu á eignarhlut ríkisins til frambúðar.

Bankasýsla ríkisins samþykkti í gær að leggja til við fjármála- og efnahagsráðherra að hefja undirbúning á sölumeðferð á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Slík tillaga hafði áður verið samþykkt en síðan afturkölluð þegar veirufaraldurinn náði hér ströndum. Samkvæmt minnisblaði bankasýslunnar er lagt til að hefja undirbúning sölunnar strax á nýju ári og ljúki því á vormánuðum með öflun tilboða, áskriftarloforða og skráningar á skipulegan markað.

„Við teljum að aðstæður séu mjög góðar. Það sem af er ári höfum við séð mjög mikla hækkun skráðra bréfa í Kauphöllinni eða um í kringum helming. Því til viðbótar hafa bankarnir hækkað, sama má segja um skráða banka í Evrópu og áhugi fjárfesta og almennings á vel heppnuðu útboði Icelandair var áberandi,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsáðherra, við Viðskiptablaðið að afloknum ríkisstjórnarfundi í morgun. Þá hafi afkoma bankans sjálfs verið betri en væntingar stóðu til.

Ekki liggur fyrir hve stór hluti verður seldur í upphafi en Bjarni segir viðbúið að það verði öðru hvoru megin við fjórðungshlut. Áhersla verði lögð á dreift eignarhald með útboði þar sem allir geta rekið þátt.

„Það er mjög tímabært að ríkið losi sig úr þessum rekstri en íslenska ríkið sker sig úr í hópi þjóðríkja hvað varðar eign hin opinbera í fjármálakerfinu. Það er mikill hallarekstur á ríkissjóði fram undan og hafa sumir velt upp þeirri spurningu hvort mögulega þurfi að hækka skatta til þess að láta enda ná aftur saman. Ég hef á móti sagt að við ættum að halda aftur að útgjaldaaukningu, leggja áherslu á vöxt og losa um eignir sem ríkið þarf ekki að eiga,“ segir Bjarni.

Heildarvirði Íslandsbanka sé áætlað á bilinu 130-140 milljarðar króna en ekki má gleyma því að aðstæður geta verið kvikar og breyst skyndilega. Verði um fjórðungshlutur seldur má því áætla að í kringum 30 milljarðar króna geti fengist í ríkiskassann.

„Þetta er langt ferli. Það þarf að meta áhuga fjárfesta og aðstæður geta breyst. Vonandi getum við fengið meira en það. En það er lykilatriði að skrá bankann, hafa hann skráðan til frambúðar og nota skráninguna sem grundvöll til sölu á frekari hlut ríkisins,“ segir Bjarni.