Bogi Guðmundsson, einn stofnenda flugfélagsins Play, vonast til að það komi í ljós fyrir jól hver verður kjölfestufjárfestir félagsins. Nú standi yfir viðræður við nokkra áhugasama innlenda og erlenda aðila. „Fjármögnunin gengur vel, þó að hún hafi gengið aðeins hægar en við hefðum viljað, þá gengur þetta samt sem áður," segir Bogi Guðmundsson, einn stofnenda flugfélagsins Play.

Hann segist ekki geta tjáð sig um við hverja hefur verið rætt við, en vonast eftir að það komi í ljós fyrir jól hver verði kjölfestufjárfestir. Fram hefur komið í máli Boga og félaga í Play undanfarnar vikur að fjölmargir innlendir aðilar hafi gefið vilyrði fyrir að fjárfesta í félaginu ef stærri aðili leiði fjárfestinguna, en einnig hafa þeir ljáð máls á því að hópur minni aðila taki sig saman og verði leiðandi.

„Það eru fleiri en einn erlendur aðili að skoða að fjárfesta í félaginu, og finnst mér líklegra að ef inn í þetta kemur erlendur aðili þá klári hann fjárfestinguna einn eða verði að minnsta kosti leiðandi. Síðan er eins og áður hefur komið fram annar sem er að koma með 80% fjármagnsins í formi lánveitingar en hann er að taka stærstu áhættuna og áskilur sér hlut."

Samningsatriði hve stór hluti stofnenda verði

Spurður út í hve stóran hlut stofnendurnir ætli sér á móti mögulegum fjárfestum og hvernig eignarhlutur stofnendanna skiptist, en í síðustu viku var greint frá því að til greina kæmi að þeir færu úr helmingshlut í 30%, segir Bogi það vera samningsatriði.

„Í stofnendahópnum eru svona 10 til 15 manns, þetta er samhentur hópur sem er að vinna óeigingjarnt starf. Í síðustu viku fór öll umræðan í fjölmiðlum í umræðu um launagreiðslur hjá okkur, en þetta er auðvitað „startup" og það eru allir í hópnum vel upplýstir og enginn ágreiningur milli stjórnar og starfsfólksins," segir Bogi.

Hann segir áhugann á að starfa fyrir félagið vera mikinn en þegar nafn félagsins var kynnt var um leið auglýst eftir starfsfólki. „Það voru fjögur þúsund manns sem sóttu um, og það hafa verið viðtöl síðustu tvær vikurnar fyrir starfsfólk í áhafnir, það er flugliða og flugmenn, en að öðru leyti erum við að fara í gegnum umsóknirnar."

Bogi segir að félagið sé á lokametrunum að tryggja sér flugrekstrarleyfi, það eina sem út af standi sé fjármögnunin, en nú standi yfir vinna með ferðaþjónustuaðilum. „Við erum að vinna að samstarfssamningum við aðila innan ferðaþjónustunnar, sem sjá mikinn hag í því að flugfélag geti hjálpað til við markaðssetningu, selt ferðir í rútur og annað slíkt," segir Bogi Guðmundsson í Play, sem leggur áherslu á mögulega neyslu viðbótarferðamanna til landsins í afþreyingu ýmiss konar.

„Þar hjálpar til að við erum með fullkominn tölvubúnað sem safnar öllum upplýsingum um kúnnann svo við getum beint markaðssetningunni á ákveðna hópa. Með okkur er félag Sveins Akerlie sem var yfir upplýsingatæknimálunum hjá Wow air á sínum tíma, en hann er með sjálfstætt fyrirtæki, AviLabs, sem hefur í samvinnu við þýska aðila hannað gríðarlega flotta bókunarvél."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .