„Við erum að bæta okkur frá því í kosningunum en þurfum samt að halda vel á spöðunum,“ segir Líf Magneudóttir, oddviti VG í tilefni niðurstaðna skoðanakönnunar Gallup á fylgi flokkanna í borginni sem gerð var fyrir Viðskiptablaðið .

„Það er ekkert tilbúið ennþá en svona kannanir veita okkur aðhald. Við eigum eftir að velja á lista og eigum eftir að fara í málefnavinnuna og málefnin liggja ekki öll fyrir,“ segir Líf en Vinstrihreyfingin - grænt framboð mælist með 13,3% fylgi.

Hún er þó þeirrar skoðunar að VG eigi að geta gert betur í kosningunum en könnunin bendir til og vonar að kosningabaráttan verði ekki „stagl og þras. Það fyndist mér drepleiðinlegt. Ég vona bara að kosningabaráttan verði málefnaleg og að fólk gefi sér tíma til að kynna sér framboðin.“

Hún segir að þrátt fyrir að VG hafi þurft að gera málamiðlanir í núverandi meirihlutasamstarfi vilji hún halda samstarfinu áfram. Er þar samhljómur milli hennar og Dags B. Eggertssonar borgarstjóra sem sagðist í samtali við Viðskiptablaðið vilja halda stjórnarsamstarfinu áfram.

Eyþór Arnalds leiðtogi Sjálfstæðismanna hefur hins vegar fulla trú á að meirihlutinn falli en flokkurinn hefur bætt nokkuð við sig í könnuninni sem gerð að stórum hluta áður en hann var kjörinn leiðtogi flokksins, eða dagana 4. til 31. janúar.