Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi, vonast til þess að áhugasamir verktakar muni bjóða í þær íbúðir sem Íbúðalánasjóður hefur boðið til sölu í bænum. Þar er um að ræða fjórtán íbúðir í eldri hluta Akraness, sem meðal annars voru auglýstar í dagblöðum í morgun.

Regína segir að tilfinnanlega vanti leiguhúsnæði á Akranesi. Það sé von sín að þeir sem muni kaupa íbúðirnar muni síðan leigja þær út. „Það er okkar von og við erum að hvetja alla þessa aðila hér til þess að skoða þetta,“ segir Regína. Hún segist nú þegar finna fyrir áhuga en á endanum sé ekkert hægt að segja til um áhugann fyrr en tilboðin hafi borist.

Regína segist upphaflega hafa óskað eftir að Íbúðalánasjóður gæti gert íbúðirnar upp og leigt þær, en fjárhagur sjóðsins er þröngur. „Ég er búinn að eiga viðræður við þá í allan vetur og í sumar,“ segir Regína.

Regína segir að sú þversagnakennda staða sé uppi á Akranesi og víðar að mikið af húsnæði standi autt en að á sama tíma vanti mikið leiguhúsnæði. „Það er eitthvað bil þarna sem verður að brúa og ég sé það bara almennt í tengslum við umræðuna um skort á leiguhúsnæði,“ segir Regína. Það sé betra að nýta það húsnæði sem sé þegar til. Það sé bæði ódýrara, varðveiti eldri bæjarmyndir betur og skapi betri ásýnd.