Bandarískir þingmenn eru sagðir vera að ná saman um leiðir til að sveigja frá fjárlagaþverhnípinu (e. fiscal cliff) sem bandarískt efnahagslíf er sagt eiga á hættu að keyra fram af þegar skattahækkanir og samdráttur á ríkisútgjöldum taka gildi eftir áramótin. Hættan er sögð svo mikil sem af þessu tvennu að Bandaríkin gætu lent í annarri kreppu. Hagfræðingar hafa varað við stöðunni um nokkurra mánaða skeið. Þar á meðal gerði Ben Bernanke, aðalseðlabankastjóri landsins, það í vikunni.

Fram kom á vef bandaríska dagblaðsins The Wall Street Journal í gær, að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, væri bjartsýnn á að samkomulag næðist í öldungadeild bandaríska þingsins.

Fram til þessa hefur ekki verið samstaða um málið. Þingmenn Demókrata hafa þrýst á að skattar á einstaklinga í efri tekjuhópum verði hækkaðir. Repúblíkanar hafa verið á móti þess en hvatt til að annarra leiða verði leitað til að auka tekjur ríkisins.