„Ég vonast til þess að árið 2015 fari að hilla undir skiptalokin,“ segir Erlendur Gíslason, lögmaður á lögmannsstofunnari Logos og skiptastjóri þrotabús Baugs Group. Hann boðar í Lögbirtingablaðinu í dag kröfuhafa á fund um málefni þrotabúsins 30. apríl næstkomandi. Baugur Group fékk greiðslustöðvun í byrjun árs 2009 en var úrskurðað gjaldþrota í mars sama ár.

Lýstar kröfur í þrotabú Baugs Group nema rúmum 400 milljörðum króna. Þær voru upphaflega um 320 millajrðar. Eftir að félagið BG Holding í Bretlandi fór í þrot var skilað inn kröfu frá félaginu á hendur Baugi. Henni var hins vegar lýst of seint í þrotabúið.

Íslensku bankarnir eru helstu kröfuhafar Baugs Group. Landsbankinn er þeirra stærstur með margþætta kröfu upp á samtals tæpar 100 milljarða króna. Hluti lána var tryggður með veðum sem kröfuhafar gengu að þegar Baugur fór í þrot.

Erlendur segir tvö dómsmál eiga eftir að klára til að ljúka skiptum á þrotabúi Baugs Group. Þau tengjast bæði riftun á sölunni á Högum. Tekist er á um annað málanna í Hæstarétti. Þá á þrotabúið eina eign sem á eftir að selja.