Gert er ráð fyrir því að efnahagslífið komist á réttan kjöl á Grikklandi á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár og að hagvöxtur verði 0,6%. Hagvöxtur hefur ekki mælst á Grikklandi í sex ár. Breska ríkisútvarpið (BBC) hefur eftir Antonis Samaras, forsætisráðherra Grikklands, að fjárlög fyrir næsta ár séu fyrsta skrefið í því að komast í gegnum björgunaráætlun sem stjórnvöld urðu að ganga inn í til að forða landinu frá gjaldþroti. Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) er ekki á sama máli og stjórnvöld á Grikklandi en þar á bæ er spáð enn einu samdráttarárinu hjá Grikkjum á næsta ári og að skuldir landsins verði yfir 160% af landsframleiðslu árið 2020.

BBC bendir á að á síðastliðnum sex árum, þ.e. frá árinu 2007, hafi landsframleiðsla þar skroppið saman um tæplega einn þriðja. Gert er enn ráð fyrir smávægilegum samdrætti á þessu ári.

Þrátt fyrir mótlætið segir Samaras ríkisstjórn landsins hafa náð að efna flest loforð sín til að rétta efnahag landsins við. Það eina sem standi út af sé aukin atvinna. Atvinnuleysi mælist 27% á Grikkklandi og er hvergi meira í hinum vestræna heimi.