Fjármálaráðherra vonast til að þess að samningar við Evrópusambandið um niðurfellingu tolla á landbúnaðarvörur geti tekið gildi um mitt næsta ár. Hann segir að samningarnir stangist ekki á við búvörusamninga því víða sé stuðningur við landbúnað. Enn fremur tekur hann fram að óvíða sé stuðningurinn jafn vitlaus og hér. Þetta kemur fram í frétt RÚV um málið.

Samningar um viðskipti með landbúnaðarvörur á milli Íslands og ESB voru undirritaðir í september árið 2015. Í yfirlýsingu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu var tekið fram að samningarnir myndu stuðla að auknu vöruvali og lægra vöruverði til hagsbóta fyrir neytendur.

„Vonir standa til að samningarnir geti tekið gildi í árslok 2016 eða byrjun árs 2017, að fenginni staðfestingu stofnana ESB og Íslands,“ sagði í fréttatilkynningunni. Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra segir að Íslendingar hafi nú þegar samþykkt samningana, en honum skiljist að ESB sé ekki búið að því.

„Eftir því sem ég kemst næst þá telja menn núna að hann verði samþykktur fyrir eða um áramót og taki þá gildi fyrir okkur um mitt næsta ár. Og það verður auðvitað mjög stórt mál fyrir neytendur,“ er haft eftir fjármálaráðherra í samtali við RÚV.

Búvörusamningur rót vandans

Benedikt hefur tjáð sig talsvert um landbúnaðarmál upp á síðkastið, en í síðustu viku skrifaði hann grein í Viðskiptablaðið þar sem að hann sagði búvörusamninginn rót vanda sauðfjárbænda og að endurskoða þurfi hann hið fyrsta. Í samhengi við að sláturleyfishafar lækkuðu afurðaverð vegna offramboðs finnst honum athyglisvert að formaður Bændasamtakanna líki bændum við launamenn en ekki atvinnurekendur með sjálfstæðan rekstur.

„Afskipti ríkisins af landbúnaði undanfarna áratugi hafa verið svo mikil að margir líta svo á að í raun séu bændur launþegar en ekki sjálfstæðir atvinnurekendur, þó að mörg bú séu á stærð við lítil og meðalstór fyrirtæki,“ segir Benedikt meðal annars í greininni.