Björn Valur Gíslason, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, vonast til þess að hægt verði að upplýsa um mat Seðlabankans á skuldastöðu þjóðarinnar á morgun, þriðjudag.

Hann segir að fulltrúar bankans hafi í morgun greint nefndinni frá skuldastöðunni en fulltrúar minnihlutans í nefndinni hafi óskað eftir frekari upplýsingum. Á þeim forsendum hafi bankamennirnir óskað eftir því að trúnaður yrði haldinn þar til fullnægjandi gögn bærust. Nefndarmenn hefðu ekki gert neinar athugasemdir við það.

Þegar Björn Valur er spurður hvað honum finnist um það að ekki sé upplýst nú þegar um stöðuna svarar hann því til að ekki standi annað til en að almenningur verði upplýstur um hana. Frekari upplýsingar muni vonandi liggja fyrir á morgun. Í kjölfarið verði skuldastaðan gerð opinber

Helgi Hjörvar, formaður efnahags - og skattanefnar Alþingis og Guðbjartur Hannesson formaður fjárlaganefndar, gáfu ekki kost á viðtali við vinnslu þessarar greinar.