Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri var viðmælandi Viðskiptablaðsins í síðustu viku.

„Ferðaþjónusta á Íslandi er dálítið sérstök að því leyti að hingað koma nánast allir ferðamenn með flugi. Umfangið í flugi er miklu meira en það sem varðar ferðaþjónustu í landinu. Þetta er nokkuð sem við eigum að vera meðvitaðri um. Flugið og hvernig það þróast skiptir ferðaþjónustuna gríðarlegu máli. Landfræðileg staðsetning Íslands er eitt og sér auðlind þegar kemur að flugi og það verður áhugavert að sjá hvernig íslensku flugfélögunum gengur að fóta sig í Asíu,“ segir Skarphéðinn. Hann telur auk þess að það sé affarasælla að hafa einn öflugan alþjóðaflugvöll frekar en að setja upp miðstöðvar millilandaflugs víða um landið. „Það voru mér vonbrigði þegar það var hætt í vetur að fljúga milli Akureyrar og Keflavíkur. Vonandi verður rekstrargrundvöllur fyrir slíku flugi í framtíðinni. Með því að koma á öflugu tengiflugi milli Keflavíkur og áfangastaða á landsbyggðinni þá njóta þessir áfangastaðir þeirrar fjölbreytni í flugi sem er til og frá Keflavík, sem þeir munu aldrei ná að byggja upp sjálfir. Ég vildi svo að þetta myndi ganga því ég hef til lengri tíma meiri trú á þessu en flugi frá afmörkuðum stöðum úti í heimi á flugvelli á landsbyggðinni.“

Umsagnir um Ísland góðar

Skarphéðinn segir að það sé ekki markmið í sjálfu sér að sem flestir ferðamenn komi til landsins heldur miklu frekar að þeir skapi atvinnu og verðmæti í hagkerfinu og að ferðaþjónusta sé rekin með arðsömum og varanlegum hætti í sátt við náttúruna. „Það er markmiðið, ekki hausatalning. Ferðaþjónustan má almennt líta meira til þess að huga að arðseminni, sem ég held að hún sé að gera nú orðið.“ Hann segir flest auk þess benda á að Íslendingar séu góðir gestgjafar. „Þær kannanir sem eru gerðar benda til þess, auk þess sem við birtum mánaðarlega umsagnir erlendra ferðamanna um landið og þær eru mjög góðar og liggja mjög hátt í samanburði við önnur lönd.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .