Talsverð vonbrigði er með skuldabréfaútgáfu þýska ríkisins í dag. Ríkið seldi skuldabréf til 10 ára fyrir rúma 3,6 milljarða evra, jafnvirði um 575 milljarða íslenskra króna. Þetta er rétt rúmur helmingur þess sem til stóð að selja. 1,98% álag var á útgáfuna.

Dræmar undirtektir með skuldabréfaútboð Þjóðverja varð til þess að ýta undir neikvæðni í röðum fjárfesta, sem nú óttast að áhrif skuldakreppunnar á evrusvæðinu muni gæta að meira marki en áður í Þýskalandi.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Skuldatryggingarálag á þýska banka hækkaði mikið. Álagið á Deutsche Bank stendur nú í 262 punktum sem jafngildir því að það kostar 262 þúsund Bandaríkjadali á ári að tryggja 10 milljóna dala skuldabréf bankans gegn greiðslufalli.

Til samanburðar stendur skuldatryggingarálagið á ítalska bankanum Banco Popolare í 891 punkti og UniCredit í 598 punktum. Spænski bankinn Banco Santander stendur í 433 punktum og þykir mörgum nóg um.

Skuldatryggingarálagið á ríkissjóð stendur hins vegar í um 340 punktum í dag.