„Ég hefði viljað sjá þetta skýrar í þessum stjórnarsáttmála,“ segir Aðalsteinn Leifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík í samtali við Viðskiptablaðið aðspurður um stefnu nýrrar ríkisstjórnar í Evrópumálum.

Aðalsteinn, sem verið hefur málsvari þess að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu (ESB), segir að lykilþáttur í því að koma hér á stöðugleika sé umsóknum um ESB aðild auk þess sem hér verði tekin upp evra sem gjaldmiðill.

Aðspurður um skort á Evrópustefnu núverandi ríkisstjórnar segir Aðalsteinn að stjórnin hafi verið mynduð til skamms tíma og ljóst sé að ekki verði sótt um aðild að ESB á næstu 80 dögum.

Hann segir að stærstu vonbrigðin séu að síðasta ríkisstjórn, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, hafi ekki tekið stærri skref í átt til ESB í kjölfar bankahrunsins í haust.

„Meginmálið er að fá skýra valkosti,“ segir Aðalsteinn og bætir því við að búast megi við því að stjórnmálaflokkarnir móti sér skýra afstöðu fyrir kosningarnar í vor.

Hann býst jafnframt við því að Evrópumálin verði sett á oddinn fyrir kosningarnar.

„Maður kemst ekki út úr erfiðleikunum nema með því að hafa skýra sýn til framtíðar. Ég er ósammála því að það sé slíkur bráðavandi að ekki megi ræða framtíðina,“ segir Aðalsteinn.