"Það verða vissulega vonbrigði ef Jón Ólafsson nýtir sér forkaupsréttinn að Skífunni en þann rétt hefur hann óumdeildanlega," segir Róbert Melax, fyrrum eigandi Lyfju. "Jón hefur þennan forkaupsrétt til 2. júlí næstkomandi. Þetta lá alveg ljóst fyrir þegar samningar voru gerðir í lok maí síðastliðinn. Við erum hins vegar komnir vel á veg með kostgefnisathugun og gerum ráð fyrir að taka við rekstrinum í byrjun næsta mánaðar þegar forkaupsréttartímabili er lokið. Við vonumst að sjálfsögðu til að Jón nýti sér ekki réttinn. Ég veit í sjálfu sér ekki hvað Jón vill eða ætlar sér að gera. Það verður bara að koma í ljós. Hann verður bara að taka sínar ákvarðanir," segir Róbert. Viðskiptablaðið hafði samband við Jón Ólafsson en hann vildi ekki tjá sig nokkuð um málið.

Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.