Björgólfur Thor Björgólfsson, stjórnarformaður Novators, sagði meðal annars í ræðu, þegar hann tók á móti viðskiptaverðlaunum Viðskiptablaðsins í hádeginu í dag, að sér þætti undarlegt hve hin pólitíska umræða um breyttar forsendur krónunnar væri skammt á veg komin. "Þar er verk að vinna að mínu mati," sagði hann. "Að sama skapi hefur það valdið vonbrigðum hve hægt hefur gengið hjá stjórnvöldum að gera fyrirtækjum kleift að skrá hlutafé sitt í evrum," sagði hann enn fremur.   Í ítarlegu viðtali við áramótarit Viðskiptablaðsins í dag kveðst Björgólfur mótfallinn því að Íslendingar gangi inn í Evrópusambandið. "[E]n ég tel að við verðum að taka upp mynt sem er stöndugri og sveigjanlegri til að mæta því alþjóðlega viðskiptaumhverfi sem við störfum nú í. Einhliða upptaka erlendrar myntar, án myntkörfu gengur líka upp og væri algerlega trúverðug." Lífeyrissjóðir stuðli að auknu jafnvægi í efnahagslífinu Björgólfur gerði lífeyrissjóðina einnig að umtalsefni í ræðu sinni í dag. Hann sagði meðal annars að það væri ánægjulegt að lífeyrissjóðir almennings hefðu fylgt fjármálafyrirtækjunum. Þeir döfnuðu hratt og væru nú færri og stærri en nokkru sinni fyrr. "Og þeir stækka hratt vegna þess hve íslenska þjóðin er ung og nema nýfjárfestingar lífeyrissjóða nú árlega yfir 300 milljörðum króna sem þýðir að þar eru á ári hverju til ráðstöfunar af almannafé svipaðar fjárhæðir og fjárlög ríkisins."   Björgólfur hélt áfram og sagði: "Sagt er að íslenska lífeyrissjóðakerfið sé eitt það öflugasta í veröldinni. Mikilvægt er að það verði einnig eitt það öruggasta og að reglur um sjóðina stuðli að auknu lýðræði, gagnsæi og öryggi í fjárfestingum sem gæti gert sjóðina að sterku afli sem stuðlaði að auknu jafnvægi í íslensku efnahagslífi."