Líkt og annars staðar í heiminum lækkuðu hlutabréfamarkaðir í Bandaríkjunum nokkuð í dag og náði S&P 500 vísitalan til að mynda 13 ára lágmarki.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 4%, Dow Jones um 4,1% og S&P 500 um 4,25% og hefur sem fyrr segir ekki verið lægri í tæp 13 ár, eða frá apríl 1996.

Síðustu tvo daga hafa fjárfestar bæði í Evrópu og Bandaríkjunum bundið vonir við aðgerðapakka kínverskra stjórnvalda sem talið var að hann myndi auka eftirspurn eftir hrávörum og varanlegum neysluvörum.

Nú virðast Kínverjar ætla að draga það að setja af stað nokkurn aðgerðarpakka sem veldur fjárfestum á Vesturlöndum nokkrum áhyggjum en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar binda menn litlar vonir til aukins vaxtar, hvorki í Bandaríkjunum né í Evrópu, á næstunni.

Samkvæmt hagvaxtaspá kínverska stjórnvalda, sem birt var í morgun, er gert ráð fyrir að 8% hagvaxtaspá stjórnvalda (frá því í nóvember s.l.) fyrir þetta ár sé enn í gildi og því engin þörf á aðgerðarpakka stjórnvalda. Kínversk stjórnvöld höfðu gert ráð fyrir að setja um 585 milljarða Bandaríkjadala inn í hagkerfið.

Það voru helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu lækkanir dagsins. Þannig lækkaði JP Morgan um 14%, Wells Fargo um 16% og Bank of America um rúm 12%.

Það sem þótti þó helst fréttnæmt í dag var að gengi hlutabréfa í Citigroup fór í fyrsta skipti undir einn Bandaríkjadal frá því að félagið var skráð á markað. Við lok markaða var gengið þó 1,02 dalir og hafði þá lækkað um 9,7% frá opnun.

Þess má þó (til gamans) geta að seinni part árs 2006 kostaði hver hlutur í félaginu um 55,7 dali.

Verð á hráolíu lækkaði í dag en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 43,6 dali og hafði þá lækkað um 3,8%. Tunnan af hráolíu kostar nú svipað og hún gerði í upphaf vikunnar.