Smásala á Evrusvæðinu dróst saman í febrúar frá fyrra mánuði og hefur ekki mælst minni síðan í júní á síðasta ári, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Smásöluvísitala Bloomberg á Evrusvæðinu mælist nú 49,6 stig en mæling undir 50 stigum gefur til kynna samdrátt.

Helstu áhrifaþættir eru taldir vera hækkandi olíuverð og aukið atvinnuleysi á Evrusvæðinu sem mælist nú 8,3%, segir greiningardeildin.

Á fimmtudaginn síðasta hækkaði Seðlabanki Evrópu stýrivexti um 25 punkta og standa þeir nú í 2,5%.

Samfara því birti bankinn uppfærða hagvaxtarspá og spáir hann nú 2,1% hagvexti í ár eftir að hafa spáð 1,9% vexti í desember.

Þá spáir bankinn því að verðbólga verði í kringum 2,2% á árunum 2006 og 2007 en verðbólgumarkmið bankans er 2%.

Ef marka má framvirka vexti á markaði virðist sem markaðsaðilar hallist í auknum mæli að því að Seðlabanki Evrópu muni hækka vexti upp í 3% fyrir lok árs 2006.

Seðlabankinn hefur gefið það skýrt til kynna að hann muni gera allt sem í hans valdi stendur til að viðhalda verðstöðugleika.

Helstu áhrifaþættir hvað varðar verðbólgu eru taldir vera hátt olíuverð og áhrif þess á almennt vöruverð og launakröfur. Næsti stýrivaxtafundur fer fram þann 6. apríl.

Tölur um samdrátt í smásölu eru áhyggjuefni fyrir hagvaxtarhorfur í ljósi þess að einkaneysla telur til meira en helmings hagkerfa Evrusvæðisins.

Heyrst hafa gagnrýnisraddir þess efnis að Seðlabanki Evrópu einblíni um of á verðbólgutölur sem geti leitt til þess að vaxtahækkanir hindri nauðsynlegan hagvöxt á evrusvæðinu, segir greiningardeildin.