Lækkun lánshæfismats Bandaríkjanna kom bæði seðlabanka Bandaríkjanna og markaðsaðilum á óvart.

Likur eru á að skuldabréf Bandaríkjanna verði seld á mánudaginn í kjölfar tíðindanna. Einnig má gera ráð fyrir áframhaldandi sölu á hlutbréfum með tilheyrandi lækkunum þó sumir sérfræðingar telji að þessi vondu tíðindi séu þegar komin fram í hlutabréfaverðinu.

Laura LaRosa hjá verðbréfafyrirtækinu Glenmede sem er með 21 milljarð dala í stýringu fyrir viðskiptavini sína sagði í samtali við Wall Street Journal í morgun að fréttirnar væru sérlega slæmar, þar sem þær bættust við ástandið í Evrópu.

Efnahagskreppa sem gæti varað í 5 ár

Berlinske Tidene fjallar um lækkun á hlutabréfamörkuðum í morgun, áður en fréttir af lækkun lánshæfismatsins voru komnar fram.

Að mati sérfræðings sem blaðið talaði við stendur Evrópa öll frammi fyrir mikilli efnahagskreppu. Sú kreppa gæti varað fimm ár áður hagur fólks fer að vænkast.

Evrópa þarf að hans mati að búa sig undir lítinn hagvöxt, vaxandi atvinnuleysi, litlar launahækkanir og aukinn þrýsting á velferðarsamfélagið.

Evran er vandarmál

Torben Andersen prófessor vi Háskólann í Árósum sagði að það væri í raun hinn sameiginlegi gjaldmiðill sem sem kæmi í veg fyrir umbætur í mörgum löndum Suður-Evrópu. Þetta er vandamál sem hefur orðið til á löngum tíma og tekur fimm ár hið minnsta að greiða úr.