Stærstu bankarnir á Wall Street hafa nú birt uppgjör sín fyrir þriðja ársfjórðung og niðurstaðan er í stuttu máli sú að þriðji ársfjórðungur þessa árs er versti ársfjórðungur bankanna frá haustinu 2008.

Mestu munar um minnkandi tekjur vegna verðbréfaviðskipta og fjárfestingabankastarfsemi bankanna.

Hagnaður JP Morgan, Bank of America, Citigroup, Goldman Sachs og Morgan Stanley vegna verðbréfaviðskipta nam 13,5 milljörðum Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi og minnkaði um 35% á milli ára skv. frétt Bloomberg fréttaveitunnar. Hagnaður af fjárfestingastarfsemi sömu banka nam samanlagt 4,5 milljörðum dala, og minnkaði um 41% á milli ára.

Standard & Poors 500 vísitalan lækkaði um 14% á þriðja ársfjórðungi, sem er mesta lækkun á einum ársfjórðungi frá því í lok árs 2008.