Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og flutningsmaður áfengisfrumvarpsins, segir málið ekki sofnað og þvert á móti hafi nýlegar skýrslur, m.a. um ósjálfbærni áfengissölu hjá ÁTVR, styrkt það í sessi. Þetta kemur fram í viðtali við hann í Morgunblaðinu .

Búið er að afgreiða frumvarpið úr allsherjar- og menntamálanefnd og bíður það annarrar umræðu á þinginu. „Málið er á biðlista núna. Svo er bara eftir að koma í ljós hvort það kemst að þegar samið verður um hvaða mál munu komast í gegn á þinginu,“ segir Vilhjálmur.

Nú er verið að leggja lokahönd á það hvaða mál verða tekin til atkvæðagreiðslu áður en þingi verður slitið og kveðst Vilhjálmur vongóður um að málið komist á dagskrá. „Málið hefur verið tekið til umræðu og langeðlilegast væri að taka málið til atkvæðagreiðslu núna. En ef ekki þá verður málið aftur tekið upp í haust,“ segir hann.