Andri Már Ingólfsson, forstjóri Primera, segir að mikill tími hafi tapast með síðustu ríkisstjórn. Hann svaraði nokkrum spurningum fyir Áramót, tímarit Viðskiptablaðsins.

Hvernig var árið 2013 heilt yfir?
Árið var gott en krefjandi. Það byrjaði vel en reyndist þyngra á lokasprettinum. Það er ljóst að enn er víða langt í land með stöðugleika í efnahagslífinu, og gildir það líka um Skandinavíu þó að þar sé umhverfið mun stöðugra en á Íslandi. Það er markverður árangur fyrir Primera Travel Group og Primera Air, að fara yfir 100 milljarða veltu á árinu, vöxturinn allur byggður á innri vexti, en jafnframt að styrkja stoðir félagsins með góðum rekstri.

Hvað fannst þér ganga vel á árinu?
Það gekk vel að halda stöðugleika í rekstri félagsins og viðbragðsflýtir við óvæntum aðstæðum. Ytri áhrif hafa gríðarlegar afleiðingar í okkar rekstri, Egyptaland lokaðist eina ferðina enn sem áfangastaður og það hafði aftur alvarlegar afleiðingar, sem og viðvarandi ógn um stríð í Sýrlandi. Heimurinn er flókinn staður.

Hvernig hefur nýja ríkisstjórnin staðið sig?
Það á einfaldlega eftir að koma í ljós. Þó finnst mér jákvætt að stjórnin hefur stigið varlega til jarðar (þrátt fyrir mikil kosningaloforð), og ekki látið etja sér út í að taka illa ígrundaðar ákvarðanir. Það þarf að skera niður í opinberum rekstri, við erum með allt of dýrt kerfi fyrir litla þjóð, og jafnframt verður að auka verðmætasköpun og útflutning. Það mun mestu skipta um framtíðarauðlegð þjóðarinnar. Það sjá allir hversu gríðarleg verðmæti ferðamenn eru að færa til landsins, það þarf að halda vel utan um þann jákvæða vöxt.

Hverjar eru væntingar þínar á nýju ári?
Að við berum gæfu til að feta réttan veg. Við töpuðum miklum tíma með síðustu ríkisstjórn, það er einfaldlega staðreynd sem öllum er ljós. Tíminn er auðlind, það þarf að nýta hann vel. Ég er nú samt vongóður um að næsta ár verði gjöfult og gott og að brekkan fari að minnka. Öll él styttir upp um síðir.