Hlutabréfa- og hrávörumarkaðir í Bandaríkjunum hækkuðu í dag eftir að fram komu nokkrir jákvæðir hagvísar. Við þetta glæddust vonir um að það versta væri að baki í heimsbúskapnum, að því er segir í frétt FT.

Framleiðsluvísitala í Bandaríkjunum hækkaði fimmta mánuðinn í röð og hefur ekki verið hærri frá því í september í fyrra. Margir fjárfestar munu hafa horft á tölur um nýjar pantanir en vísitala þeirra fór yfir 50 stig, sem felur í sér breytingu úr samdrætti í vöxt í fyrsta sinn frá því í nóvember 2007.

Á evrusvæðinu komu einnig fram tölur um jákvæðari framleiðslu. Þar er enn samdráttur en tölurnar í dag eru þó þær bestu í sjö mánuði.

S&P hlutabréfavísitalan í Bandaríkjunum hækkaði um 2,6% í dag og hefur ekki verið hærri í sjö mánuði. FTSE Eurofirst vísitalan í Evrópu hækkaði um sömu hlutfallstölu og hefur ekki verið hærri frá því í janúar. Nikkei Average í Japan hækkaði einnig, um 1,6%, og hefur ekki verið hærri í átta mánuði.