Eftir að hafa náð lágmarki í apríl virðist hagvöxturinn í Bandaríkjunum halda áfram að vaxa í júní og vera að ná hluta af því sem tapaðist vegna áhrifa kórónuveirufaraldurins á ný. Að minnsta kosti virðist L- laga hagvaxtarþróun, þar sem efnahagsleg umsvif haldist lág eftir að samkomubönn og fjarlægðarreglum verður aflétt, vera ólíkleg miðað við nýjar tölur.

Öfugt við í mörgum öðrum efnahagsáföllum í kjölfar náttúruhamfara hafa hagfræðingar spáð því að mögulega verði hagvöxtarferillinn ekki V-laga í þetta sinn, það er eftir hraða lækkun nái hann sér hratt á ný, því áhyggjur af smithættu verði viðvarandi lengur.

Sterkustu vísbendingarnar um að hagvöxturinn sé að taka við sér koma í tölum yfir neyslu en í apríl hrundi hún saman um 16%, sem er mesta fall hennar í sögulegum gögnum. Á þriðjudag munu birtast tölur um neyslu í Bandaríkjunum í maí, en hagfræðingar eru að spá því að hún aukist á ný um 7,9%, sem þýðir að lækkunin í apríl hafi dregist til baka um 40% að því er WSJ greinir frá.

Jafnframt virðast vikulegar tölur benda til áframhaldandi vaxtar í júnímánuði, og voru sölutölur í dagvöruverslunum fyrstu viku mánaðarins jafnvel hærri en á sama tíma árið áður. Viðskipti veitingastaða og hótela var enn þó minni en árið áður, en ekki nálægt því jafnmikið og í apríl, meðan enn er mjög lítil viðskipti í kvikmyndahúsum, hjá flugfélögum og skemmtigörðum.

Hægst gæti á uppsveiflunni

Lorn Davis hjá Facteus sem tekur saman viðskipti 16 milljón debit og kreditkortanotenda segir tölurnar betur lýsa stöðunni hjá tekjulægri notendum, en þær passi samt sem áður við óvenjumikla sölu hjá verslunum sem hafa opnað dyr sínar á ný.

Karen Dynan hagfræðingur hjá Peterson Institute for International Economics segir hægt að búast við að hagvöxturinn verði hraður fyrst um sinn, hann nái stökki hjá þeim fyrirtækjum sem fólk treysti sér að versla við eftir að þau opna á ný.

„Ég yrði ekki hissa að sjá það sem virðist vera töluverð uppsveifla frá þeirri miklu niðursveiflu sem við sáum í apríltölunum, en ég held að svo eigi eftir að hægja hratt á uppsveiflunni eftir að þau fyrirtæki sem eiga auðvelt með að opna á ný gera það,“ segir Karen Dynan.

Þannig telja hagfræðingar Goldman Sachs að neysla almennings sé nú um 90% af því sem hafi verið fyrir kórónuveirufaraldurinn, en hún fór niður í 74% um miðjan apríl. Jafnframt hafi útflutningur iðnvarnings náð jafnvægi í maí eftir að hafa dregist saman í mars og apríl.

Fjárfestingarbankinn býst við því að hagvöxtur dragist saman um 3,8% á ársfjórðungnum. JP Morgan bankinn uppfærði sínar tölur á föstudag og býst nú við 4,8% samdrætti eftir að hafa fyrst spáð 6,3%.