Húsnæðisverð í San Francisco er nú orðið svo hátt að skólar borgarinnar geta ekki lengur ráðið kennara til starfa, þar sem launin duga ekki fyrir því að búa í borginni.

Samkvæmt KTVU í San Francisco þarf enn að ráða 51 kennara á þeim tveimur vikum sem eru eftir af sumarfríinu, en vegna þess hve dýr borgin er vilja fáir sækja um starfið.

Yfirmaður menntamála í San Francisco hefur sent kennurum bréf og beðið þá um að mæla með einstaklingum í starfið. Lita Blanc, sem er yfir verkalýðsfélagi kennara í borginni, sagði við KTVU:

„Ég heyri þetta svo ótrúlega oft. Fólk segir að það geti ekki starfað á svæðinu ef það getur ekki fundið sér stað til að búa á.“

Vandamálið hefur verið til staðar í nokkur ár. San Francisco er alveg við Kísildalinn og húsnæðisverð hefur rokið upp í verði vegna aukinnar aðsóknar að svæðinu.