*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 20. október 2014 19:18

Vopn sem Íslendingar fundu innihéldu líklega sinnepsgas

Hermálayfirvöld í Bandaríkjunum hafa leynt upplýsingum um efnavopn sem fundust í Írak vegna þess að tilvist þeirra var vandræðaleg.

Ritstjórn
Írak. Líkur eru taldar á því að íslenskir sérfræðingar hafi í raun fundið vopn sem innihéldu sinnepsgas.
AFP

Margt bendir til þess að vopn sem íslenskir sprengjusérfræðingar fundu í Írak árið 2004 hafi innihaldið sinnepsgas, eins og haldið var í fyrstu. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

New York Times greindi frá því í síðustu viku að hermálayfirvöld í Bandaríkjunum hefðu leynt upplýsingum um efnavopn sem fundust í Írak frá innrásinni í landið 2003. Þá sagði blaðið að reynt hefði verið að hylma yfir meiðsl sem hermenn hlutu af þessum vopnum, vegna þess að þau hafi verið hönnuð og framleidd í Bandaríkjunum og seld Írökum þegar þeir voru í stríði við Íran. Vopnin hafi innihaldið bæði tauga- og sinnepsgas og tilvist þessara vopna hafi verið vandræðaleg fyrir bandarísk stjórnvöld. 

Jónas Þorvaldsson, sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar, ræðir málið við Kastljós í kvöld. Hann fann sprengjur í Írak sem voru rannsakaðar í þaula og niðurstaðan var sú að þær innihéldu sinnepsgas. Bandarísk yfirvöld sögðu svo þó ekki vera, en svo var sprengjunum eytt eins og þau væru efnavopn.

Greint var frá því í íslenskum fjölmiðlum árið 2004 að íslenskir sprengjusérfræðingar hefðu fundið sprengikúlur sem innihéldu sinnepsgas. Danskir og breskir sérfræðingar staðfestu þá efnagreiningu en efnið var svo rannsakað af bandarískri efnarannsóknarstofu. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri um eiturgas að ræða.

Þessi fundur var sá fyrsti þar sem efnavopn fundust í Írak, en tilvist slíkra vopna var ein helsta ástæðan fyrir innrás í landið ári fyrr.