Hönnunaverslunin Vopnabúrið við Hólmaslóð var úrskurðuð gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur 20. júní síðastliðinn. Búið er að loka versluninni og innsigla vörulager hönnunarfyrirtækisins. Engin starfsemi er þar nú í gangi. Skiptastjóri hefur verið settur yfir þrotabúið og lýsir hann eftir kröfum í þrotabúið í Lögbirtingablaðinu. Eigandi verslunarinnar er vöruhönnuðurinn Sruli Recht. Hann hefur vakið mikla athygli víða um heim en bandaríska tímaritið Wallpaper sagði fyrir tveimur árum Vopnabúrið á meðal tíu athyglisverðustu verslunum heims árið 2010.

Í umsögn Wallpaper á sínum tíma sagði m.a. að bæði útlit verslunarinnar og innihald hennar bæri með sér að þrátt fyrir hrun efnahagslífsins hefti það ekki sköpunargleðina.

Neikvætt eigið fé

Vopnabúrið var stofnað árið 2009 og skilaði síðast ársreikningi fyrir uppgjörsárið 2011. Þar kemur fram að verslunin hafi tapað rétt tæpum 10 milljónum króna og var eigið fé fyrirtækisins neikvætt um 10,7 milljónir króna. Afkoma verslunarinnar bar ekki með sér mikið umfang. Þvert á móti var rúmlega 9,6 milljóna króna tap af reglulegri starfsemi fyrir skatta. Í uppgjörinu námu eignir 24 milljónum króna í lok árs 2011. Mestar eignir voru vörur til endursölu upp á rétt tæpar tíu milljónir króna og vélar, áhöld og tæki upp á 6,6 milljónir.

Á móti námu skuldir tæpum 35 milljónum króna. Skuldir við hluthafa námu 17,7 milljónum króna en við lánastofnanir upp á 7,5 milljónir.