Hönnunarfyrirtækið Vopnabúrið var stofnað fyrir fjórum árum og fékk glimrandi umfjöllun í útlöndum. Reksturinn fór í þrot í sumar þegar lífeyrissjóður krafði fyrirtækið um greiðslur sem dregnar höfðu verið af launum starfsmanna.

Stakk undan lífeyrissjóði

Vopnabúrið skilaði síðast ársreikningi í fyrra vegna afkomunnar árið 2011. Þar kemur fram að tapið nam tæpum 10 milljónum króna og var eigið féð neikvætt um 10,7 milljónir króna undir lok árs. Verðmæti eigna nam 24 milljónum króna og lá það að mestu í lager sem verðlagður var á tæpar tíu milljónir króna.

Þónokkrir starfsmenn lýstu kröfum í þrotabú Vopnabúrsins vegna vangoldinna launa. Enginn fékk greitt úr þrotabúinu sem er eignalaust eftir að Íslandsbanki tók lagerinn. Launakröfur, sem námu á fimmtu milljón króna, voru því greiddar að mestu eða öllu leyti úr Ábyrgðasjóði launa. Það var Líf­eyrissjóður verslunarmanna sem lagði fram beiðni um gjaldþrota­skipti fyrirtækisins.

Ástæðan var vangreiddar lífeyrissjóðsgreiðslur upp á 2,2 milljónir króna sem dregnar höfðu verið af launum starfsmanna en ekki skilað sér til lífeyrissjóðsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.