Tveir vopnaðir menn frömdu vopnað rán í útibúi Landsbankans í Borgartúni rétt fyrir hálf tvö í dag. Mennirnir komust undan með fjármuni. Ekki liggur fyrir hversu háa upphæð er um að ræða, en samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum er upphæðin óveruleg. Annar mannanna var með skammbyssu en hinn með hníf samkvæmt myndum úr öryggismyndavélum sem lögreglan hefur birt.

Mennirnir komu að útibúinu á stolinni, hvítri sendibifreið, Ford Transit, með skráningarnúmerið VDZ 53, en bíllinn fannst síðar í Barmahlíð í Reykjavík. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins veittu þrír lögreglubílar ræningjunum eftirför í átt að Kringlumýrarbraut.

Lögreglan biður þá sem geta veitt upplýsingar um málið að hafa tafarlaust samband við 112. Upplýsingum má einnig koma á framfæri á netfangið [email protected] eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Víkingasveitin mætti á svæðið, en útibúinu hefur nú verið lokað og starfsmönnum hefur verið veitt áfallahjálp. Lögreglan hefur unnið að því að taka skýrslur af vitnum. Verulegar skemmdir voru unnar á innanstokksmunum og öskruðu mennirnir að um rán væri að ræða, samkvæmt frétt Vísis um málið. Þá mætti Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, á svæðið.