*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Erlent 22. febrúar 2019 15:15

Vopnahlé í viðskiptastríði í sjónmáli

Aukin bjartsýni á að viðskiptaviðræður milli Kína og Bandaríkjanna skili árangri.

Ritstjórn
Viðræður samninganefnda Kína og Bandaríkjanna um milliríkjaviðskipti þjóðanna standa nú yfir.

Fjárfestar hafa fylgst náið með viðskiptaviðræðum milli Kína og Bandaríkjanna að undanförnu, en fulltrúar þjóðanna sátu í níu klukkustundir á fundum í gær. Hlutabréf vestra hækkuðu við opnun markaða í dag og segja fréttaskýrendur það til marks um aukna bjartsýni á að viðsemjendur muni ná saman fyrir 1. mars nk. þegar frestur til að ná samkomulagi rennur út.

Þriðja lota samningaviðræðnanna, sem varað hafa í jafnmargar vikur, lýkur í dag og í kjölfarið mun formaður samninganefndar Kína hitta Trump Bandaríkjaforseta og ræða framgang viðræðnanna.

Hins vegar bendi margir greinendur á að þrátt fyrir góðan gang í viðræðunum síðastliðna viku þá standi enn alvarlegustu deilumálin út af borðinu. Ekki síst óttast menn að samningar kunni að sigla í strand þegar höfundaréttur í hug- og vélbúnaði komi til umræðu, en meint brot á höfundarétti í hátækni hafi borið hæst í gagnrýni Trump á viðskiptahætti Kínverja.  

Þannig greinir Wall Street Journal frá því að mikið beri enn á milli í afstöðu til þeirrar kröfu Bandaríkjanna að Kína láti af brotum á höfundarétti og niðurgreiðslum til tæknifyrirtækjum í eigu ríkisins, Financial Times segir auk þess frá því að viðsemjendur reyni nú að ná sáttum í langvarandi deilu örgjafaframleiðandanna Micron Technology og Fujian Jinhua, en bandarískir ráðamenn hafa lengi vísað til deilunnar sem dæmi um ósanngjarna viðskiptahætti að hálfu kínverskra yfirvalda.