Vopnaframleiðandinn Sturm Ruger & Company segir forsetakosningarnar hafa verulega jákvæð áhrif á sölutölur. Samkvæmt CNN Money hefur salan aukist um þriðjung, en félagið seldi fyrir 161,4 milljónir dala á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Tekjur félagsins hafa á sama tíma aukist um 66%, en bréfin hækkuðu um rúm 7% í október.

Chris Killoy, tilvonandi forstjóri fyrirtækisins segir Bandaríkjamenn óttast Hillary Clinton, en hún hefur talað fyrir hertum reglum og auknu eftirliti. Forstjórinn hefur ekki viljað tjá sig mikið um kosningarnar, en furðar sig á því hvernig Clinton berst gegn vopnaiðnaðinum, sem skapar umtalsvert af störfum í Bandaríkjunum.

Fyrirtækið hefur undanfarið verið að kynna ný vopn til leiks sem byggð eru á öðrum vopnum. Helst má nefna hálfsjálfvirka AR-15 riffla sem kallast AR-556 og hálfsjálfvirkar skammbyssur sem kallast LCP II og LC9. Skammbyssurnar hafa verið vinsælar meðal heimila, en rifflarnir hafa verið eftirsóttir af einstaklingum sem óttast umfangsmeiri lög.

AR-15 riffillinn hefur verið vinsæll meðal fjöldamorðingja, en slíkt vopna var notað á Pulse skemmtistaðnum í Orlando, Florida í júní.