Tryggingafélagið Vörður hagnaðist um 385 milljónir króna eftir skatta á síðasta ári. Er það nokkru minna en á árinu 2013 þegar fyrirtækið hagnaðist um 506 milljónir króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Verði.

Vöxtur var í iðgjöldum á árinu en þau námu nú 5.314 milljónum króna samanborið við 4.974 milljónir ári fyrr. Tjón ársins voru hins vegar einnig kostnaðarsamari, en þau námu nú 3.903 milljónum króna en voru 3.507 milljónir króna árið 2013.

Heildareignir félagsins í lok ársins námu 10.264 milljónum króna en þær voru 9.663 milljónir í árslok 2013. Eigið fé félagsins nam 3.116 milljónum króna og nam eiginfjárhlutfallið 30,4% en það lækkaði um 0,8% milli ára. Arðsemi eigin fjár var 13,7% en var í árslok 2013 19%.

„Rekstur Varðar gekk vel á síðasta ári líkt og undanfarin ár og náðist góður árangur á flestum sviðum starfseminnar. Félagið heldur áfram að styrkjast bæði í eignum og iðgjöldum og ánægðum viðskiptavinum fjölgar ár frá ári. Hlutdeild Varðar á íslenskum tryggingamarkaði er að aukast og stuðlar það að aukinni samkeppni til hagsbóta fyrir neytendur,“ segir Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar, um uppgjörið.