Hagnaður Varðar árið 2016 nam 564 milljónum króna fyrir tekjuskatt en var 728 milljónir árið 2015. Að teknu tilliti til skatta var hagnaður ársins 487 milljónir króna samanborið við 658 milljónir árið 2015.

Iðgjöld ársins hækkuðu um 18% milli ára og námu 6.811 milljónir samanborið við 5.765 milljónir króna árið 2015. Tjón ársins námu 5.286 milljónum á síðasta ári og jukust um 15% milli ára. Fjárfestingatekjur námu 854 milljónum króna í fyrra og minnkuðu um 27% milli ára.

Rekstrarkostnaður var 1.590 milljónir króna árið 2016 og hækkaði um 199 milljónir milli ára eða um 14%.

Samsett hlutfall, sem er skilgreint sem tjónakostnaður og rekstrarkostnaður sem hlutfall af iðgjöldum, var 102,6% árið 2016 samanborið við 105,8% árið 2015.

Í tilkynningu er haft eftir Guðmundi Jóhanni Jónssyni, forstjóra Varðar, að starfsemi félagsins hafi gengið vel á árinu líkt og undanfarin ár og að reksturinn sé stöðugur og traustur.

„Þrátt fyrir að afkoman sé sú þriðja besta í sögu félagsins var hún undir væntingum okkar en ásættanleg í ljósi aukins tjónaþunga og þá sérstaklega í ökutækjatjónum. Þrátt fyrir hagfelldar ytri aðstæður er umhverfi tryggingafélaga á margan hátt krefjandi í efnahagsuppsveiflu sem endurspeglast í fjölgun tjóna og hækkandi kostnaði. Þá ríkir mikil samkeppni á markaðnum,“ segir Guðmundur. Hann segir að viðskiptavinum félagsins hafi fjölgað um 10% í fyrra og séu þeir nú um 36.000 talsins.

Arion banki hf. eignaðist Vörð á árinu 2016 og í ársbyrjun 2017 var samþykkt að sameina dótturfélag Varðar, Vörð líftryggingar hf. og Okkar líftryggingar hf. frá og með 1. janúar 2017 með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins. Áætlað er að samrunaferlinu verði lokið á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.