Vörður hefur fyrst íslenskra fjármálafyrirtækja hlotið Jafnlaunavottun VR. Vottunin staðfestir það launajafnrétti sem ríkir hjá Verði og styður hún enn frekar við þá stefnu og áætlun sem félagið hefur sett sér í jafnréttismálum að vera framsækið í stað þess að byggja á gömlum hefðum. Í framkvæmdastjórn félagsins er jafnt kynjahlutfall og eru 51 starfsmanna karlar á móti 49% kvenna.

Haft er eftir Guðmundi Jóhanni Jónssyni, forstjóra Varðar, að áfram verði unnið að þessum málaflokki af heilum hug.

„Niðurstaðan er okkur mjög ánægjuleg og sýnir þessi vottun að Vörður er framsækið og nútímalegt tryggingafélag. Félagið hefur unnið markvisst að jafnréttismálum í gegnum tíðina og meðal annars  fengið Gullmerkið sem er jafnlaunavottun PWC. Hjá Verði er gildandi jafnréttisstefna sem miðar að því að fyllsta jafnréttis sé gætt sem tryggir að einstaklingar njóti sömu launakjara og starfstækifæra óháð kyni. Vörður hefur ætíð lagt áherslu á  jafnrétti í launum og starfstækifærum sem þessi jafnlaunavottun staðfestir,“ segir Harpa Víðisdóttir, mannauðsstjóri Varðar.

Öll fyrirtæki og stofnanir á íslenskum vinnumarkaði geta sótt um Jafnlaunavottun VR, óháð stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna.