Eimskip hefur samið við tryggingafélagið Vörð um tryggingar á starfsemi fyrirtækisins á Íslandi. Um er að ræða stærsta einstaka tryggingasamninginn sem Vörður hefur gert við fyrirtæki til þessa. Kemur þetta fram í tilkynningu.

Undir tryggingasamninginn falla öll dótturfyrirtæki Eimskips hér á landi, allir flutningabílar Eimskips Flytjanda, tryggingar TVG Zimsen, rekstur skipamiðlunar Gáru í Hafnarfirði, farmtryggingar á vegum Eimskips innanlands og starfsmenn fyrirtækjanna. Eimskip og dótturfyrirtæki reka fjölþætta starfsemi innanlands og utan og er fjöldi starfsmanna um 700.

„Við erum mjög stolt og glöð yfir því að Eimskip sé komið í góðan hóp viðskiptavina Varðar. Mörg af helstu fyrirtækjum landsins hafa á undanförnum árum treyst Verði fyrir tryggingum sínum og nú bætist elsta og öflugasta skipafélag landsins í hópinn. Vaxandi styrkur Varðar síðustu ár hefur skilað því að félagið er mjög samkeppnisfært á íslenskum tryggingamarkaði,“ segir Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar í tilkynningunni.