Vörður mun veita viðskiptavinum sínum með einstaklings- eða fjölskyldutryggingu þriðjungsafslátt af iðgjöldum í maí. Afslátturinn nær til um 55 þúsund viðskiptavina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Verði.

Umræddur afsláttur nær til allra trygginga heimilisins, það er ökutækja-, fasteigna-, innbús- og persónutrygginga. Afslátturinn nær hins vegar ekki til fyrirtækja „enda býður Vörður nú þegar önnur tímabundin og sérsniðin úrræði“ að því segir í tilkynningunni.

„Forsenda þess að fara í svona aðgerð er að tímabundið svigrúm hefur skapast á tryggingamarkaði í því fordæmalausa ástandi sem nú ríkir. Verulega hefur hægst á efnahagslífinu og samfélaginu almennt, sem leitt hefur af sér talsverða fækkun tjónatilkynninga í helstu vátryggingaflokkum, ekki eingöngu ökutækjatryggingum,“ segir í tilkynningunni.

Þá fá einstaklingar sem staðgreitt hafa árið í heild endurgreiðslu sem samsvarar þriðjungs afslætti á einum mánuði.