Íslenska hugbúnaðar- og ráðgjafafyrirtækið Gangverk hefur unnið að stafrænni umbreytingu fyrir Sotheby‘s, elsta uppboðshús heims sem stofnað var árið 1744, síðan í lok árs 2016. Fá verkefni hafa komist að hjá Gangverki síðan þá, nú er mörgum stórum áföngum lokið og vonast félagið eftir að geta sinnt breiðari hópi viðskiptavina í framtíðinni. „Fyrst var okkur falið að byggja upp rafrænt uppboðskerfi Sotheby‘s, sem á þeim tíma var einungis brot af heildartekjum,“ er haft eftir Atla Þorbjörnssyni, stofnanda Gangverks, en verkefnið tók um 15 mánuði.

Hann segir að öldin sé önnur nú þar sem rafræn uppboð, sem líkja má við uppboð Ebay, er sá hluti Sotheby‘s sem vex hvað hraðast. Verkefni Gangverks hafa vaxið samhliða þeim uppgangi og því nóg að gera. „Rafrænu uppboðin gengu vel og fór þeim því að fjölga. Að auki fengum við enn meiri ábyrgð um mitt ár 2018 þegar okkur var treyst fyrir því að rafvæða „live“ uppboð félagsins en þau eru í raun mjólkurkú Sotheby’s,“ segir Atli en sá hluti rekstursins er bróðurpartur af tekjum félagsins. Vöxtur Gangverks hefur verið töluverður en starfsmenn félagsins voru um 50 í upphafi ársins 2019, samanborið við 10 árið 2016.

COVID spornar við íhaldinu

Þrátt fyrir hraðan vöxt á rafrænum uppboðum segir Atli að bransinn sem Sotheby‘s starfi í sé fremur íhaldssamur og þá sérstaklega hvað varðar stærstu uppboðin. Ekki var því alltaf auðvelt að rafvæða þau en sökum heimsfaraldursins voru engir aðrir kostir í boði.

„Eftir að fólk gat ekki farið að heiman, sökum heimsfaraldursins, var enginn grundvöllur fyrir hefðbundin uppboð sem fór eðlilega að hafa áhrif á tekjustreymið. Nú hefur Sotheby‘s tekist að færa þau uppboð yfir á stafrænt form, sem þau höfðu tækifæri á vegna hugbúnaðarins sem við hönnuðum, en þannig hefur salan ekki dalað jafn mikið og hjá öðrum,“ segir Atli.

„Það kemur kannski ekki á óvart að uppboðsbransinn sé uppfullur ef ekki yfirflæðandi af íhaldssemi. COVID var því sparkið sem þurfti til, og fór vorsalan fram með stafrænum hætti í ár. Vorsölunni var breytt í lifandi sjónvarpsefni. Það var einn uppboðshaldari frá London og hópur fulltrúa frá Hong Kong, New York og París, allir í mynd og var þetta í fyrsta sinn sem vorsala fer fram með þessum hætti. Hugbúnaðurinn okkar var í aðalhlutverki sem gerði öllu þessu fólki kleift að taka þátt í uppboðinu hvaðan sem er í heiminum,“ er haft eftir Atla.

Hann segir söluna í voruppboðinu hafa gengið framar björtustu vonum en nokkur met voru slegin. „Á þessum þremur dögum á vorsölunni seldi Sotheby‘s listaverk fyrir vel yfir 500 milljónir dollara, rúmlega 70 milljarða króna, og voru nokkur met slegin í leiðinni. Tvívegis var metið yfir dýrasta listaverk sem keypt hefur verið í gegnum netið slegið þar sem greiddar voru 15 milljónir dollara í því hærra. Jafnframt slógum við met fyrir hæsta „online“ boð í sögunni, en því miður tapaði viðkomandi fyrir klassísku símaboði, en „online“ boðið hljóðaði upp á 80 milljónir dollara sem hlýtur að teljast nokkuð dýr músasmellur.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .