Fjártæknifyrirtækið Leiguskjól, sem Arion banki keypti ráðandi hlut í undir lok síðasta árs , hefur stundað vátryggingastarfsemi án tilskilins starfsleyfis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands.

Í tilkynningunni segir að þann 22. nóvember á síðasta ári hafi FME komist að þeirri niðurstöðu að Leiguskjól hafi brotið gegn 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 100/2016 um vátryggingastarfsemi, með því að stunda vátryggingastarfsemi án tilskilins starfsleyfis.

„Starfsemi félagsins fólst í að veita ábyrgðarþjónustu með útgáfu sjálfskuldarábyrgða fyrir efndum leigutaka samkvæmt húsaleigusamningum. Nánar tiltekið gaf félagið út yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð, að beiðni leigutaka til handa leigusala. Ábyrgðin var til tryggingar á réttum efndum leigutaka samkvæmt fyrirliggjandi leigusamningi, þ.e. fyrir leigugreiðslum og skaðabótum vegna tjóns á hinu leigða, sbr. 39. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994, en ábyrgðin takmarkaðist við vissa fjárhæð í samræmi við 40. gr. sömu laga. Ábyrgðaryfirlýsinguna gaf félagið út gegn greiðslu mánaðarlegs iðgjalds auk kostnaðar af útgáfu ábyrgðarinnar. Fjárhæð iðgjalds byggði m.a. á þeirri áhættu sem félagið undirgekkst með útgáfu ábyrgðaryfirlýsingar,“ segir í tilkynningu FME.

FME hafi því hafið skoðun á því hvort ofangreind ábyrgðarþjónusta fæli í sér vátryggingastarfsemi. Varð niðurstaða FME sú að félagið hafi stundað vátryggingastarfsemi í greinaflokki efndavátrygginga með útgáfu húsaleiguábyrgða. „Var í því sambandi einkum litið til þess að megintilgangur starfsemi félagsins var að safna saman í hóp aðilum sem búa við sömu áhættu og flytja hana til félagsins með því að gefa út ábyrgðaryfirlýsingar gegn greiðslu iðgjalds,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt að Leiguskjól muni koma til með að miðla ábyrgðum fyrir hönd Arion banka. Þá er einnig tekið fram að niðurstaða FME hafi ekki áhrif á gildi þegar gerðra samninga og útgefinna ábyrgða Leiguskjóls.

Taldi eftirlitið, með hliðsjón af atvikum málsins, ekki tilefni til að beita viðurlögum gegn Leiguskjóli í málinu.